SS BYGGIR EHF
SS BYGGIR EHF
Starfsmenn
23.4.2010 - SS Byggir verðlaunað
Sumardaginn fyrsta var fyrirtækið okkar verðlaunað fyrir athafnasemi og kraftmikla starfsemi á hátíð sem nefnist Vorkoma Akureyrarstofu. Það var Sigurður Sigurðsson, framkvæmdastjóri sem veitti verðlaununum viðtöku. Verðlaunin eru mikil viðurkenning fyrir SS Byggi og starfsfólk þess. Hér fyrir neðan má sjá ræðu Elínar Margrétar Hallgrímsdóttur sem hún hélt við afhendinguna:
"Stjórn Akureyrarstofu leitaði til fjölbreytts hóps ráðgjafa þegar ákvörðun um Athafna- og nýsköpunarverðlaun var í undirbúningi. Fjölmargir nefndu fyrirtækið RAF og svo var annað rótgróið fyrirtæki í ólíkum geira nefnt oftar en einu sinni. Þetta fyrirtæki var stofnað 16.mars 1978 og hefur starfað sleitulaust síðan og án þess að fara í æfingar með kennitölur sem er ekki sjálfgefið eins og menn þekkja. Framkvæmdastjóri þessa öfluga fyrirtækis er Sigurður Sigurðsson og fyrirtækið kennt við hann SS – Byggir. Fyrstu árin voru byggð nokkur einbýlishús og raðhús, starfsmenn voru 4 - 6 og verkstæðið og skrifstofan voru á neðri hæðinni í Sunnuhlíð 10. Á tímabili kom fyrirtækið upp fjölmörgum svokölluðum Siglufjarðarhúsum, húseiningarhúsum framleiddum á Siglufirði en fyrsta stóra verkefnið var 54 íbúða fjölbýlishús sem reist var við Hjallalund og þar var í fyrsta sinn byggt bílastæðahús á Akureyri.
Eftir 1990 og fram til dagsins í dag hefur verið meira um stærri framkvæmdir eins og skóla, sjúkrahús, íþróttahús og skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Þessar stóru framkvæmdir hafa kallað á fleira starfsfólk, aukinn tækjabúnað og bætta gæðastjórnun. Meðal stærri verkefna upp á síðkastið má nefna nýjasta áfangann við VMA, íþróttahús við Giljaskóla, Naustaskóla og nú síðast fjölbýlishús við Undirhlíð. Umsvif fyrirtækisins hafa stóraukist og það hefur komið sér fyrir í glæsilegri aðstöðu við Njarðarnes. Um 50 manns starfa nú hjá SS Byggir auk fjölda undirverktaka. Fyrirtækið býr yfir miklum mannauði, við góða aðstöðu og tækjabúnað og getur í krafti þess tekið að sér fjölbreytt og umfangsmikil verkefni. Bjartsýni og stórhugur hefur ávallt einkennt framkvæmdastjórann, fyrirtækið hefur gengið í gegnum hæðir og lægðir í efnahagslífinu en ávallt komið standandi niður. Fyrir þrautseigju og bjarsýni fær SS – Byggir Athafna- og nýsköpunarverðlaun Akureyrarstofu árið 2010. Sigurður Sigurðsson er hér kominn til að veita viðurkenningunni móttöku."


Til baka