SS BYGGIR EHF
SS BYGGIR EHF
Starfsmenn
13.6.2003 - ENDURBÆTUR Á BREKKUSKÓLA
Í dag var skrifað undir samning milli Akureyrarbæ og SS Byggir ehf. vegna fyrsta áfanga endurbóta og viðbyggingar á Gagnfræðaskólahúsinu, Brekkuskóla.
Skóflustunga verður tekin kl. 16.50 í dag og verða nemendur Brekkuskóla þátttakendur í athöfninni.

Í kynningarskjali frá Fasteignum Akureyrarbæjar segir:

Stjórn Fasteigna samþykkti á fundi þann 21. mars 2003, að efna til boðkeppni um viðbyggingu við Brekkuskóla (GA-hús) og voru 6 hönnuðir valdir í opnu forvali til þátttöku í keppninni. Fasteignir Akureyrarbæjar undirbjuggu samkeppnina þar sem óskað var eftir tillögum um:

viðbyggingu við GA- hús,
endurhönnun á núverandi húsnæði skólans, GA- húsi,
hönnun á lóð, bifreiðastæðum og aðkomu.

Markmið með samkeppninni var að fá fram sem besta lausn í húsnæðismálum fyrir Brekkuskóla. Kallað var eftir hagkvæmri lausn sem tæki til viðbyggingar, endurhönnunar á GA-húsi og tengingar við það. Leitað var eftir lausn sem myndaði heildarramma utan um farsælt starf skólans. Áhersla var lögð á það að hönnuðir tækju mið af því umhverfi sem skólinn er í. Brekkuskóli er grunnskóli frá 1.-10. bekk, nemendafjöldi er um 500 nemendur.

Leitað er að góðri lausn á húsnæðismálum skólans með það í huga að nýting á GA- húsi verði sem best verður á kosið, út frá því starfi sem á sér stað í skólanum. Hætt verður að nota BA-hús fyrir skólann og er notkun óráðin. Koma þarf viðbyggingu þannig fyrir á lóðinni að tenging við húsnæðið sem til staðar er verði sem best og að skólinn vinni sem ein heild.

Samkeppni um hönnun Brekkuskóla var unnin í samvinnu við Arkitektafélag Íslands og skipaði félagið tvo menn í dómnefnd af fimm.

Hluti af samkeppnisverkefninu var hönnun á lóð, bifreiðastæðum og aðkomu skólans og að afmarka neðra húsi (BA) lóð. Áhersla var lögð á að aðgreina umferð gangandi fólks og bifreiða. Gert var ráð fyrir að aðkoma að íþróttahúsi við Laugargötu verði sundlaugarmegin. Skilafrestur tillagna var til 17. sept. og bárust fimm tillögur. Tillaga frá arkitektur.is var hlutskörpust og valin til frekari útfærslu. Samningur við arkitektur.is var undirritaður í október 2002.

Vel hugsuð og vel unnin tillaga, miðjurými og aðkoma góð. Þungamiðja skólans mjög vel leyst með nýju sameiginlegu rými s.s. sal, bókasafni, eldhúsi ofl. og getur nýst sem hverfismiðstöð utan skólatíma. Frumleg hugmynd að breytingu á eldra húsnæði, sem aðlagar það að nútíma skólastarfi. Nýbygging og breytingar á eldri byggingu falla vel að nágrenninu, þó telur dómnefnd stóra glerveggi óheppilega fyrir kennslurými og viðhald byggingarinnar. Vegalengdir innan skólans eru stuttar og skýrar. Þröngt á milli bygginga, má leysa með einföldum hætti. Huga mætti betur að skjólmyndun. Umferðarleið milli bygginga helst til þröng.

Ákveðið var að bjóða framkvæmd út í tveimur áföngum og var sá fyrri boðin út í maí. Þar var óskað eftir tilboðum í jarðvinnu, lagnir, sökkla og botnplötur fyrir nýbyggingu. Fjögur tilboð bárust í verkið og var gengið til samninga við lægstbjóðanda, SS byggir ehf. Verkið verður hafið strax að lokinni undirritun samnings og á fyrsta áfanga að vera lokið eigi síðar en 1. sept. 2003.

Annar áfangi verður boðinn út í byrjun júlí 2003. Áætlað er að framkvæmdin taki um tvö ár og verður framkvæmdum við nýbyggingu lokið sumarið 2004, en endurbótum á eldra húsi í ágúst 2005.

Brúttó stærð viðbyggingar er um 1673 m² og endurbætur og breytingar verða gerðar á eldra húsi, það breikkað og lengt samtals um 3.448 m² og er stærð lóðar skólans 44.150 m², sem verður endurunnin. Brúttó stærð þess húsnæðis sem skólinn mun hafa til ráðstöfunar verður þá um 5.120 m².

Heildarkostnaður er áætlaður um kr. 640 milljónir án fjármagnskostnaðar, á verðlagi maímánaðar 2003.

Arkitekt - ráðgjafar:

arkitektur.is

Burðarþol og lagnir:

Hönnun hf.

Raflagnir:

Raftákn ehf

Landslagsarkitekt:

Suðaustanátta

Aðalverktaki 1. áfanga:

SS byggir

Til baka