SS BYGGIR EHF
SS BYGGIR EHF
Starfsmenn
11.8.2004 - BALDURSHAGI SAMÞYKKTUR
Baldurshagi var tekinn fyrir í bæjarstjórn í gærdag, og er eftirfarandi tekið beint upp úr fundargerðinni;

3 Brekkugata-Baldurshagi - íbúðir fyrir aldraða
2004050113
6. liður í fundargerð bæjarráðs dags. 22. júlí 2004 þar sem umhverfisráð lagði til við bæjarstjórn að umsækjanda verði heimilað að fullvinna deiliskipulagstillögu á grundvelli framlagðrar hugmyndar um 12 hæða fjölbýlishús með 45 íbúðum. Jafnframt verði umhverfisdeild falið að setja fram tillögu að samsvarandi breytingu á aðalskipulagi. Meirihluti bæjarráðs samþykkti tillögu umhverfisráðs en vísaði fullnaðarafgreiðslu til bæjarstjórnar.

Fram kom tillaga frá bæjarfulltrúunum Jakobi Björnssyni, Gerði Jónsdóttur, Jóhannesi G. Bjarnasyni, Kristjáni Þór Júlíussyni, Þóru Ákadóttur og Þórarni B. Jónssyni svohljóðandi:
"Bæjarstjórn Akureyrar fellst á tillögu umhverfisráðs með eftirfarandi skilmálum:
Þar sem um er að ræða áform um byggingu á áberandi stað í bæjarmynd Akureyrar skal umhverfisráð, áður en málið kemur til endanlegrar afgreiðslu bæjarstjórnar Akureyrar, gangast fyrir vandaðri kynningu meðal bæjarbúa á mótuðum tillögum um byggingaráformin.
Kostnaður við vinnslu tillagna af hálfu umsækjanda skal vera á hans kostnað."

Bæjarstjórn samþykkir framkomna tillögu með 8 atkvæðum gegn 2.
Sigrún Björk Jakobsdóttir óskar bókað að hún sat hjá við afgreiðslu.

Bæjarfulltrúi Valgerður H. Bjarnadóttir lagði fram eftirfarandi bókun:
"Það ber vissulega að fagna frumkvæði og bjartsýni byggingarverktaka í bænum, nú sem endranær. Ég vil þó lýsa andstöðu minni við þau vinnubrögð meirihlutans að setja ekki fram nokkra heildarstefnu í skipulagsmálum, en láta tilviljanakenndar óskir verktaka ráða þróun bæjarmyndarinnar gagnrýnislaust, eins og raunin hefur verið undanfarin ár.
Ég tel bæði óæskilegt og ótímabært að huga á þessu stigi frekar að undirbúningi framkvæmda við 13 hæða fjölbýlishús á lóð Baldurshaga. Á vegum verkefnisins "Akureyri í öndvegi" fer nú í hönd víðtæk og metnaðarfull skoðun í framtíð Miðbæjarins og næsta nágrennis og eðlilegt að jafn áberandi reitur í skipulaginu og Baldurshaginn er, sé tekinn inn í þá skoðun."

Tekið af vef Akureyrarbæjar www.akureyri.is


Til baka